Sagan

Þann 14. mars 1981 var fyrsti Tommaborgara-staðurinn opnaður við Grensásveg. Það var skömmu eftir að Tómas Tómasson kom heim frá Bandaríkjunum eftir að hafa stundað þar nám við hótel- og veitingaskóla en þar kynntist Tommi hamborgaranum og vildi ólmur kynna hann fyrir Íslendingum. Í hugum margra er Tommaborgarinn fyrsti hamborgarinn á Íslandi og þá voru Tommaborgarar með fyrstu veitingahúsakeðjum landsins en þegar mest var töldu Tommaborgarar 26 staði um land allt.

 

Árið 1983 tók Tómas ákvörðun um að selja allan sinn rekstur en þá hafði hann selt yfir eina milljón hamborgara. Í framhaldi af því stóð Tómas að opnun Hard Rock í Kringlunni en hann hefur einnig komið að rekstri staða eins og Ömmu Lú, Hótel Borg og Kaffibrennslunnar. Það var síðan árið 2004 sem hann opnaði fyrstu Hamborgarabúllu Tómasar við Geirsgötu í Reykjavík ásamt sonum sínum tveimur og Erni Hreinssyni. Vinsældir staðarins jukust hratt og því voru fljótlega fleiri staðir opnaðir. Í dag er að finna Hamborgarabúllu Tómasar á níu stöðum á Íslandi en eru þeir staðsettir á Höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og Reykjanesbæ. Ásamt þeim eru reknir 8. staðir erlendis en fyrsta Hamborgarabúllan utan Íslands opnaði í London árið 2012. Nú, sex árum seinna, eru þeir orðnir þrír talsins Í Englandi, tveir í Danmörku og þrír í Þýskalandi.

  • Stemningin

    Í sparifötum eða vinnugallanum? Það skiptir ekki máli, allir eru velkomnir á Búlluna. Staðir Hamborgarabúllunnar eru innréttaðir á afslappaðan hátt, starfsmenn staðanna leggja áherslu á vinalega þjónustu og vilja þeir að öllum líði vel inni á Búllunni. Góð tónlist og þægilegt andrúmsloft gerir frábæran borgara enn betri í umhverfi þar sem að viðskiptavinir geta kúplað sig úr amstri dagsins og notið í rólegheitunum.

  • Borgarinn

    Síðan 1981 höfum við grillað ansi mikið af borgurum. Við sérhæfum okkur í hamborgurum sem eru einfaldir en á sama tíma ómótstæðilega bragðgóðir úr besta fáanlega hráefni. Sérvalið hágæða nautakjöt, grillað yfir eldi, nýbakað brauð ásamt fersku grænmeti og hárréttri blöndu af sósum verður að Búlluborgaranum víðfræga.